15 maí 2004

NÚ DUGIR ÞETTA EKKI LENGUR


Jæja nú er ég búin að ákveða að þetta ástand hér á mér dugi ekki lengur. Nú ætla ég að halda áfram þar sem frá var horfið, áður en ég fór í aumingjakast, og rísa upp á afturlappirnar og berjast við helvítis vambarpúkann. Ég virðist ekki (sem betur fer) hafa þyngst í þessum aumingjaskap mínum og því kannski auðveldara að halda áfram. Samt farin að kvíða fyrir vigtununni hjá Kristínu á þriðjudag þó svo ég sé að reyna að segja við sjálfan mig að það sé ekki sú vigt sem ég sé að fara eftir og slíkt þá get ég ekki annað en að kviðið fyrir.
Mig er farið að hlakka til að verða mjó og ég má ekki skemma það fyrir sjálfri mér. Þá er ég ekki viss um að ég geti nokkru sinni fyrirgefið mér. Shoot Me En allavega nú ætla ég að halda áfram og ég er það ákveðin og frek manneskja að ég get það sem ég ætla mér!

Langar bara að þakka ykkur elskurnar fyrir stuðninginn og hef ég best séð það núna hvað svona átaksblogg getur verið mikill stuðningur við mann, því maður þarf að standa sig fyrir fleiri en mann sjálfan.

14 maí 2004

ÞÁ STÓÐ SVÍNIÐ UPP OG LABBAÐI HEIM Á LEIÐ


Helvítis veikleiki. Keypti um daginn súkkulaði kex fyrir Svein og Binna, hélt nú að ég gæti alveg ráðið við það að eiga það til. En nei nei í gær fékk ég þetta óstjórnlega átkast, ég bara stóð og tróð upp í mig mat, skóflaði bókstaflega með báðum höndum allt það sem ég náðií og þar á meðal svona 5 eða 6 súkkulaðikex. Varð eginlega mikið illt á eftir og í morgun þegar ég vaknaði var mér svo illt í líkamanum og aum eftir þetta stjórnlausa át að ég hélt að ég myndi deyja!
Var samt 96,2 á vigtinni þannig að allt í allt eru farin 7,3 kg sem er náttúrulega mjög gott. Verð bara að halda áfram, má ekki gefast upp, ég neita að vera feit það sem eftir er!
Ég er sko alveg sjör á því að ef ég ætti ykkur ekki að *sniff* *sniff* þá væri ég sko löngu búin að gefast upp. En ég vona að ég fái og finni fljótlega aftur sama kraftinn sem hefur fylgt mér hingað til í þessu átaki mínu, og taki þessu sem hverju öðru tímabili sem mátti alveg búast við.

13 maí 2004

SVINDLERÍ SVINDL


Jæja verið oggulítið að sukka. Gleymdi mér á þriðjudaginn og var búin að troða í mig 4 hrökkbrauðsneiðum með osti og smjöri áður en ég vissi af!!! Fór svo á kynningu um kvöldið hjá múttu og sú gamla náttúrulega með hlaðborð af kræsingum, en ég var með svo mikin móral eftir hrökkbrauðssukkið að ég lét mér kaffið duga, þannig ég fæ hálft klapp á bakið. Er ekki búin að vera nógu dugleg í vatninu og mjólkinni þarf að taka það í gegn hjá mér. Svo eru ávextirnir líka eitthvað minni heldur en þeir eiga að vera. Þarf að fara að endurskoða þetta allt hjá mér. Svindlaði pínku líka í morgun. Fékk í heimsókn fólk frá Féló til að taka út hjá mér af því ég er vistforeldri í sveit og var búin að útbúa bakka með smurbrauði ekkert óhollt álegg svo sem egg, gúrkur og flatkökur með reyktri skinku en ég borðaði eina eggja brauðsneið og 3 flatkökur með skinku (skamm vond slumma (úr leitin að Nemó))og fékk mér ekki ávöxt eða tók vítamínin mín. En jæja get huggað mig við það að ég er þó ekki að leggjast í sætinda át!! Var samt 96,6 á vigtinni í morgun þannig að eitthvað er ég að gera rétt!
Núna er maður að verða soldið þreittur á þessari megrun og er ekki eins mikið á tánum og fyrst, en það er samt megin atriði að maður leggist ekki í sukk og svínari og reyni eftir bestu getu að vera soldið meðvitaður. ÆTLA að vera mjó þegar ég gifti mig og ÆTLA að vera mjó þegar ég verð 25 ára og hana nú! Helvítis spik að drepa mann.

11 maí 2004

ÞRIÐJUDAGUR


Jæja í dag er þriðjudagur og auðvita var ég eigi fyrr risin úr rekkju en málbandið góða var tekið fram. Brúkaði ég það um alla mína "fögru" keppi og var útkoman svo hljóðandi.

MAGI: 123
RASS: 121,5
LÆRI: 69
MITTI: 102
BRJÓST: 118
UPPHANDLEGGIR: 36
VIGT: 97

Jæja þá eru alls farnir 48 cm og 6,5 kg síðan 13 apríl. Milli vika missti ég 8,5 cm og 1,7 kg. Ekki eins mikill missir og hefur verið en það er ekki endalaust hægt að missa tugi sentimetra. Samt þetta er ágætt.

Mér sýnist bak-keppirnir hafa minkað en þeir fara mest í taugarnar á mér. Rassinn er aftur á móti eitthvað seinn að grípa það að hann eigi að minka og er því bara alltaf jafn stór helvítið á honum. Mest hef ég misst í mittið eða 12 cm svo kemur maginn og er farið af honum 10 cm svo koma brjóstin með 8 cm og svo lærin með 7,5 cm og svo rassinn með 6,5 cm og svo reka upphandleggirnir restina með 4 cm farna. Vona bara að þetta haldi áfram að minka.

10 maí 2004

ÞAÐ HLAUT AÐ KOMA AÐ ÞVÍ


Jæja jæja það hlaut að koma að því. Ég er komin með leið á þessari megrun. Ekki það að allt gangi vel og ekki það að mig langar í eitthvað sem ég má ekki fá heldur er ég orðin leið á því hvað ég held að þetta gangi ekkert hjá mér! Held að það hljóti að vera bara betra að hætta að hugsa um þetta allt saman í stað þess að vera sífellt að mæla sig og vigta. Væri eginlega til í að fá einhvern til að sýna mér svona framtíðar mynd af mér. Sýna mér svart á hvítu að ef ég held svona áfram þá muni ég eftir x langan tíma vera orðin svona mjó. Fúllt púllt
Annars púlaði ég heilmikið í dag, mokaði út úr hesthúsunum, hef ekki gert það síðan áður en ég varð ófrísk af Arndísi Ingu. Gaman að taka ærlega til hendinni aftur, á morgun ætla ég svo að fara að stynga út úr fjárhúsunum hjá mér en ég er með taðhús svo það fylgir vorverkunum að stynga út. Það verður reyndar enginn svaka vinna því þær eru bara þrjár skjáturnar mínar. En öll hreyfing er góð ekki satt?!
Jæja bið að heilsa í bili

09 maí 2004

Hinn brjálaði Olludjús


Þetta finnst mér svaka fyndið. Allar að drekka engiferdjús og búið að skíra hann í höfuðið á mér Hysterical ég vona bara að hann virki jafn vel á ykkur og á mig!!
Var að lesa hjá einni ykkar (man ekki hverri í augnablikinu) umræðu um vatnið, að það sé ekki mjög hollt að drekka of mikið af því. Ég er ekki sammála, ég er heilari og þau skilaboð sem ég hef fengið um vatn er það að við eigum að drekka sem mest af því. Því meira því betra. Líkaminn okkar er að mestuleiti vatn og við getum ekki lifað án þess, við getum lifað ótrúlega lengi án fæðu en ekki án vatns. Ég held að með stöðugri og mikilli vatnsdrykkju sé hægt að laga margt hvert vandamálið í líkama okkar, veit um fólk sem hefur lækkað kólesteról og háþrýsting með mikilli vatnsdrykkju. EF maður venur sig á mikla vatnsdrykkju þá hættir maður fljótlega að vera alltaf að pissa, líkaminn fer að nota vatnið í annað og hættir að skila því eins mikið út. Ég er ekki viss um að maður geti fengið þvagleka á því að drekka mikið vatn, ég hef verið með þvagleka allt mitt líf og til að bæta hann þarf ég að æfa vöðvana í kringum blöðruna, sem sagt magavöðvana og grindabotninn og mér finnst þvaglekinn einmitt aldrei vera verri en þegar ég hef trassað það í soldin tíma að drekka vatn. Ég held að þegar maður er orðinn þyrstur þá sé orðinn verulegur vatnsskortur í líkamanum sem er ekki gott, þá einmitt byrja söltin að skilja sig úr líkamanum (allur vökvi verður saltari og súrari, sjáið það á pissinu sem er þá orðið dökk gult) og þá byrjar bjúgurinn að setjast á mann. Maður verður því að passa að verða ekki þyrstur. Ég trúi því statt og stöðugt að vatn sé allra meina bót þá sérstaklega okkar góða Íslenska vatn, og við sem erum svo heppnar að geta notið þess ættum að gera það í eins miklum mæli og við getum.

Annars gengur allt vel ég var 97 á vigtinni í morgun sem þýðir að 6,5 kg er farið (yesssss) síðan 13 apríl, held reyndar enn þá að vigtin mín sé eitthvað klikkuð og er orðin virkilega stressuð yfir þessu. Sagði við kallinn minn í gær að ég væri bara ábyggilega ekkert að léttast og þetta væri bara allt eitthvert svindl. Hann hélt nú ekki og reyndi að stappa í mig stálinu. Ég veit bara að vigtin þokast niður á við og meðan hún frekar niður en upp þá er ég ánægð skítt svo með það hvað ég sé þung í raun og veru.